Fréttir um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál

TIL UMSAGNAR: Reglugerð um birtingu niðurstaðna vegna eftirlits með áburði og fóðri

20.2.2017

Reglugerð um birtingu niðurstaðna vegna eftirlits með áburði og fóðri er sett með stoð í 6. gr. a. laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru. Þar er mælt fyrir um að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um opinbera birtingu niðurstaðna vegna eftirlits með fóðri, áburði og sáðvöru. Samkvæmt núgildandi reglugerð nr. 291/2010 um birtingu niðurstaðna vegna eftirlits með áburði er ekki fjallað um birtingu niðurstaðna vegna eftirlits með fóðri. 

Helstu breytingar frá núgildandi reglugerð eru:

  • Matvælastofnun verði heimilt að birta niðurstöður úr eftirliti með áburði og fóðri á heimasíðu stofnunarinnar.
  • Afmarkað er með skýrari hætti í hvaða tilvikum Matvælastofnun er heimilt að birta niðurstöður en það er í eftirfarandi tilvikum:
  1. Þegar niðurstöður úr efna- og örverugreiningum leiða í ljós að áburður eða fóður er ekki í samræmi við vörulýsingu eða ákvæði laga nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru eða reglugerða settra á grundvelli þeirra.
  2. Þegar niðurstöður úr efna- og örverugreiningum í vinnsluumhverfi áburðar eða fóðurs leiða í ljós hættu á að óæskileg efni eða örverur smitist í áburð eða fóður.
  3. Þegar niðurstöður leiða til þess að Matvælastofnun gefur fyrirmæli um afmengun, takmarkar framleiðslu eða markaðssetningu, leggur hald á eða fer fram á förgun á áburði eða fóðri.
  • Í stað þess að Matvælastofnun sé skylt að birta árlega skýrslu stofnunarinnar vegna eftirlits með áburði á markaði fyrir lok árs er lagt til að stofnunin skuli birta skýrsluna fyrir 1. febrúar næsta ár á eftir.

Athugasemdir og ábendingar um reglugerðirnar óskast sendar á netfangið postur@anr.is merkt "Reglugerð um birtingu niðurstaðna vegna eftirlits með áburði og fóðri."

 Frestur til að skila umsögnum er til 6. mars 2017.


 

 

Til baka