Fréttir um iðnaðar, viðskipta- og ferðamál
  • Einkaleyfastofan

Til umsagnar: Breyting á heiti Einkaleyfastofunnar

14.3.2017

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna breytingar á heiti Einkaleyfastofunnar. Með frumvarpinu er lagt til að heitinu "Einkaleyfastofan" verði breytt í „Hugverkastofa“.  

Meginmarkmið breytingarinnar er að heiti stofnunarinnar gefi skýrari mynd af starfsemi hennar. Einkaleyfastofa fer með málefni hugverkaréttinda á sviði iðnaðar á Íslandi, þ.e. einkaleyfi, vörumerki, hönnunarvernd, byggðamerki og önnur hliðstæð réttindi. Ber stofnuninni jafnframt að veita einstaklingum, stofnunum og fyrirtækjum upplýsingar og ráðgjöf varðandi hugverkaréttindi í iðnaði. Enn fremur stuðlar stofnunin að því að ný tækni og þekking sem felst í skráðum hugverkaréttindum verði aðgengisleg almenningi. 

Heitið „Einkaleyfastofan“ gefur því ekki skýra mynd af starfsemi stofnunarinnar þar sem það vísar eingöngu til einnar tegundar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Frumvarpið hefur þó ekki áhrif á starfsemi stofnunarinnar eða verkefni hennar þar sem einungis er um nafnabreytingu að ræða. 

Frestur til að skila umsögnum um frumvarpsdrögin er til 23. mars.

Til baka Senda grein